Ljósmyndir frá Minningarathöfn um Hinrik Gunnar Hilmarsson
Fjölmargir félagsmenn úr Golfklúbbi Reykjavíkur voru viðstaddir Minningarathöfn um Hinrik Gunnar Hilmarsson, sem haldin var í Langholtskirkju þann 31. mars.
Hinrik Gunnar (f. 1958) hefur verið mjög áberandi í starfi sínu fyrir golfhreyfinguna og sennilega hafa fáir verið í meiri samskiptum við félagsmenn klúbbsins en Hinrik. Á undanförnum árum hefur hann sinnt dómara- og eftirlitsstörfum fyrir Golfklúbb Reykjavíkur auk þess sem hann leiðbeindi félagsmönnum á reglu- og nýliðanámskeiðum. Þá starfaði hann einnig í unglingstarfi klúbbsins. Um tíma starfaði hann fyrir Golfsambandið að markaðsmálum, en lengst af starfsævinnar fékkst hann við sölu- og markaðsstörf.
Hinrik kvaddur (31.3)
Read MoreFallin frá
Dánarfréttir í dagblöðunum með nöfnum félaga úr Golfklúbbi Reykjavíkur hafa verið áberandi á fyrsta fjórðungi ársins, svo eftir var tekið. Þó þessu vefsvæði sé ætlað annað hlutverk en birting dánarfregna, þá langar umsjónarmanni vefsvæðisins að breyta út af venjunni, til að heiðra minningu þessara félaga sem létust á fyrstu þremur mánuðum ársins.
Margrét Jónsdóttir (f. 1942) lést þann 8. mars. Margrét lék handknattleik á yngri árum en þegar ferlinum lauk tók golfið við. Hún var félagi í klúbbnum í þrjá áratugi og oftast mjög virk, þó komum hennar á golfvellina hafi fækkað á síðustu árum vegna heilsuleysis.
Ólafur Ágúst Ólafsson (f. 1922) lést þann 19. febrúar. Ólafur varð Íslandsmeistari í golfi 1954 og 1956 og klúbbmeistari árin 1956, 1959 og 1963. Hann var af mikilli golffjölskyldu. Faðir hans Ólafur Gíslason heildsali, var einn af stofnendum Golfklúbbs Íslands árið 1934, síðar forseti GSÍ og bróðir hans Gísli varð Íslandsmeistari 1942-4. Ólafur var í fyrsta íslenska golflandsliðinu sem tók þátt í Heimsmeistaramótinu 1958. Þá átti hann sæti í landsliði öldunga og sat um tíma í stjórn GR.
Ólöf Guðný Geirsdóttir (f. 1923) lést þann 4. febrúar í hárri elli. Ólöf var í framvarðarsveit íslenskra kvenna og klúbbbmeistari GR árið 1967, en það ár var byrjað að keppa um þann titil eftir langt hlé. Ólöf varð fyrsta konan á Íslandi til að fara holu í höggi árið 1965 þegar hún sló teighögg sitt á núverandi 17. braut á Grafarholtsvelli beint í holu. Alls fór hún fjórum sinnum holu í höggi.
Ragnar Vignir (f. 1928) lést þann 22. janúar 2016. Ragnar starfaði fyrir rannsóknarlögregluna en fékkst jafnframt nokkuð við íþróttaljósmyndun, meðal annars tók hann myndir af mótum á Grafarholtsvelli. Hann hóf að stunda golf stuttu eftir að klúbburinn settist að í Grafarholti og átti sæti í stjórn GR um tíma. Nokkuð er síðan Ragnar lagði kylfurnar á hilluna en tveir synir hans, þeir Reynir og Sigurhans hafa verið félagar í GR í fjölmörg ár.
Þuríður Sölvadóttir (f. 1946) lést þann 20. janúar. Eflaust hafa margir félagsmenn GR tekið eftir þessari brosmildu konu sem lék oft golf með manni sínum Bergsveini Alfonssyni og hópi Valsmanna.
Halldór Sigmundsson (f.1931) lést 15. janúar 2016 og hafði þá verið félagsmaður í klúbbnum frá því á sjöunda áratug síðustu aldar. Hann átti um tíma sæti í stjórn klúbbsins og stýrði forgjafarnefnd GR um tveggja áratuga skeið. Halldór var einn þeirra sem gerðist ævifélagi í klúbbnum, en sá hópur er nú orðinn ansi fámennur. Halldór var menntaður í arkitektúr, eins og faðir hann Sigmundur Halldórsson, sem var einn stofnanda GÍ og hönnuður fyrsta félagsheimilis klúbbsins. Myndasafn frá Halldóri er að finna á þessu vefsvæði: http://www.golfmyndir.is/Lj%C3%B3smyndas%C3%B6fn-einstaklinga/%C3%9Ar-myndasafni-Halld%C3%B3rs/
Frá Vinstri: Margrét Jónsdóttir, Ólafur Ágúst Ólafsson, Ólöf Guðný Geirsdóttir, Ragnar Vignir, Þuríður Sölvadóttir og Halldór Sigmundsson.