Áttatíu ára gamlar myndir úr Laugardalnum
Nýlega komu fram þrjár ljósmyndir, sem sennilega hafa ekki komið fyrir augu félagsmanna í Golfklúbbi Reykjavíkur áður. Um er að ræða myndir sem teknar voru á Austurhlíðarvelli í Laugardal, fyrsta golfvelli landsins, en það var sex holu völlur sem þjónaði félagsmönnum klúbbsins í rúm tvö ár, frá 12. maí 1935 til 1. júní 1937, þegar leigusamningur klúbbsins rann út.
Myndirnar þrjár, sem sjást hér að ofan voru á þremur filmubútum sem fundust í geymslum klúbbsins á Korpúlfsstöðum og umsjónarmaður ljósmyndavefsins naut liðsinnis frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur við að koma myndunum á stafrænt form. Myndirnar þrjár eru í góðum gæðum og því upplagt fyrir áhugasama að smella á hverja mynd fyrir sig og skoða þær í fullri stærð.