Jónas Gunnarsson er púttmeistari GR 2014
Tíunda og síðasta púttkvöld karla fór fram á fjósaloftinu á Korpúlfsstöðum þann 21. mars. Mikil spenna og sviptingar voru á lokakvöldinu, sérstaklega í liðakeppninni þar sem röð efstu liða breyttist talsvert lokakvöldið. Mótið stóð yfir í tíu vikur, leiknar voru 36 holur á kvöldi, en árangur keppenda var reiknaður út frá sex bestu skiptunum.
Fyrsta flokks kylfingurinn Jónas Gunnarsson sigraði í einstaklingskeppninni og er því púttmeistari karla hjá GR þetta árið. Skor Jónasar fyrir sex bestu skiptin (216 holur) var 336 högg. Hannes G. Sigurðsson hreppti 2. sætið með glæsilegum lokaspretti, en hann náði besta árangri á hring frá upphafi á áttunda kvöldi þegar hann lék á 51 höggi og hann jafnaði það met á lokakvöldinu. Höggafjöldi Hannesar var 338 högg og Þórður Axel Þórisson varð þriðji á 341 höggi.
Þórður Axel var einnig í sigursveitinni sem lék á 682 höggum. Með honum í sveit voru þeir Sigurður Erik Hafliðason, Erlingur og Atli Hjaltested. Í öðru sæti, með einu höggi meira var sveit skipuð tveimur feðgum; Jón Þór Einarsson, Sindri Þór Jónsson, Kristmundur Eggertsson og Eggert Sigmundsson.
Halldór B. Kristjánsson sá um alla skipulagningu púttkvöldanna Veitt voru verðlaun fyrir fimm efstu sæti í einstaklingskeppninni og fyrir þrjú efstu sætin í liðakeppninni. Þá voru fjölmörg útdráttarverðlaun, en hvert sæti var skipað í veitingasalnum á 1. hæðinni þegar verðlaunaafhending fór fram. Keppendur voru rúmlega 200 talsins.