Albatrosi hjá Ámunda

Mjög lítill hluti kylfinga upplifir það á lífsleiðinni að leika golfholu á þremur höggum undir pari. Til að vinna slík afrek þurfa kylfingar að fara holu í höggi á par 4 braut, eða leika par 5 holu á tveimur höggum. Ámundi Sigmundsson, sem starfar sem sölustjóri hjá Skeljungi og er einn margra fyrrverandi knattspyrnumanna, sem tekið hafa ástfóstri við golfíþróttina skipaði sér í þann fámenna hóp þegar hann lék 12. holuna í Grafarholti á tveimur höggum á fyrsta keppnisdeginum í Meistaramóti GR.

Ámundi lék í 1. flokki á Meistaramótinu og  var ekkert allt of sáttur við spilamennsku sína þegar hann kom á tólfta teiginn í Grafarholtinu þennan dag. Hann var fimm höggum yfir pari og stóð höllum fæti gegn meðspilurum sínum, þeim Kjartani Tómasi Guðjónssyni og Hilmari Sighvatssyni, sem voru að leika mjög vel. ,,Þegar ég kom að 12. holunni kom ekkert annað til greina en að stytta sér leið og slá yfir holtið. Höggið tókst vel og boltinn lenti rétt fyrir framan 150 metra hælinn. Það kom því ekkert annað til greina en að reyna við flötina. Ég mældi 144 metra í flaggið og þar sem smá meðvindur var þá ákvað ég að nota 8- járnið, slá fullt högg og vera frekar of stuttur, heldur en að eiga það á hættu að boltinn færi yfir flötina. Höggið tókst mjög vel og ég áttaði mig á því hvað gerst hafði þegar þeir Kjartan og Hilmar fóru að öskra að kúlan hefði farið ofan í holuna," segir Ámundi, sem náði að jafna við þá Kjartan og Hilmar með þessu höggi.

- En hvernig gekk þér í framhaldinu?

,,Ég neita því ekki að mér leið mjög undarlega á eftir. Ég var þó ákveðinn í að skila þessum höggum ekki strax til baka. Það tókst til að byrja með. Ég fékk ,,skolla" á 13. holunni og ,,fugl" á þeirri fjórtándu. Hins vegar gekk lítið upp á síðustu fjórum holunum. Þær lék ég á sex höggum yfir pari og endaði á hringinn á 79 höggum."

Ámundi segist aldrei áður hafa verið nálægt því að fá albatrosa, ernirnir (tveir undir pari á holu) eru hins vegar orðnir þó nokkrir á löngum ferli, meðal annars einn á par þrjú holu í Setberginu fyrir 15-20 árum, sem tryggði honum aðild að Einherjaklúbbnum.

Aðeins þrír skráðir albatrosar

Þetta er þriðji albatrosinn sem greinarhöfundi er kunnugt um á keppnisvöllum Golfklúbbs Reykjavíkur. Sennilegt er að tilvikin séu þó fleiri, en engin samtök halda utan um þessi afrek, á sama hátt og gert er þegar kylfingar fara holu í höggi.

Sigurður Pétursson, fyrrum Íslandsmeistari og kennari klúbbsins sló annað högg sitt ofan í holuna á 4. braut af 230 metra færi með 3-tré árið 1977. Sigurður, sem var sautján ára gamall, setti þá vallarmet af gulum teigum, en hann kom inn á 68 höggum.

Axel Ásgeirsson fékk Albatross á sömu braut í Meistaramóti GR árið 2006. Axel keppti í flokki 15-18 ára en sá flokkur leikur jafnan af hvítu teigunum.

Þess má geta að líkurnar á kylfingar fái albatrosa hafa verið áætlaðar einn á móti milljón hjá áhugamönnum. Möguleikarnir eru þó mun meiri í keppni atvinnumanna og til að mynda virðast slík tilvik vera skráð á stærstu mótaröðunum á eins til tveggja ára fresti Til samanburðar eru líkur á holu í höggi áætlaðar 1:3700-12.500 eftir hæfni kylfings og erfiðleikastuðli brautar.

Á myndinni hér til hliðar sést Ámundi sækja boltann í holubollann á 12. flötinni.

Untitled photo

Powered by SmugMug Owner Log In