Hvar er myndin tekin?  

Það getur verið snúið að greina gamlar ljósmyndir. Oft er umhverfið framandi og fólkið sem á myndunum er orðið öllum gleymt. Ljósmyndin hér til hliðar er í þeim flokki. Hún er ein fjölmargra mynda úr safni GR. Fyrsta vísbendingin var stærð ljósmyndarinnar sem þessi rafræna útgáfa var skönnuð. Hún var agnarsmá, eins og algengt var um myndir frá árunum 1930-50.

Hún sýnir kylfing í lokastöðu í sveiflunni, en andlitsfallið er ógreinilegt. Þegar myndin er stækkuð sést að á jörðinni er fornfálegur golfpoki, svipaður þeim sem kylfingar fluttu hingað til lands á árdögum íþróttarinnar hér  á fjórða áratug síðasta aldar.

Þó ekki sé hægt að bera kennsl á kylfinginn og ekki sé vitað um tilefni myndatökunnar, því oftast voru myndavélar ekki teknar upp nema með hátíðleg tækifæri. Ef til vill er um erlendan kylfing að ræða sem sýnt hefur listir sínar á golfvellinum. Að minnsta kosti virðist kylfingur vera nokkuð fagmannlegur og í góðu jafnvægi í enda sveiflunnar. Af myndinni af dæma virðist kylfingur slá af bráðabirgðateig, því uppbyggður teigur er við hlið hans. Það bendir til þess að myndin sé tekin að vori eða vetri og varla er hún tekin á Íslandsmóti sem jafnan eru leikin þegar vellir eru í sínu besta standi.

Í bakgrunni sjást há möstur sem gefa staðsetninguna til kynna. Hún  var tekin á gamla golfvellinum í Mjóumýri, en Landsíminn var með aðstöðu í jaðri vallarins og setti upp nokkur fjarskiptamöstur um 1940.

Mörgum spurningum er ósvarað, en, út frá staðsetningu mastranna með hliðsjón af loftmyndum sem teknar hafa verið af svæðinu, er nokkuð ljóst að myndin er tekin á 9. teig vallarins. Níundi teigur vallarins (eins og hann var leikinn frá 1946) var þar sem Listabraut er nú (sjá neðar) og slegið var í átt að Kringlumýrarbraut, sem reyndar var ekki lögð fyrr en á 7. áratug síðustu aldar, en þá höfðu reykvískir kylfingar yfirgefið völlinn og voru farnir að leika golf í Grafarholti.


UMHVERFI 9. TEIGS Á GAMLA VELLINUM Í MJÓUMÝRI EINS OG ÞAÐ LÍTUR ÚT Í DAG

Sjónarhorn kylfingsins

Teigurinn á 9. braut var á þeim stað sem nú er Listabraut, eins og sést á þessari mynd sem tekin var af Google-maps. Fjölbýlishúsið framundan er Ofanleiti 7-9 og brautin lá yfir það svæði þar sem Verslunarskólinn reis síðan. Flötin var skammt austan við þann stað þar sem Kringlumýrarbraut er nú, rétt sunnan við Listabraut, þar sem nú er bílastæði.

Sjónarhorn ljósmyndarans

Ef sjónarhorn ljósmyndarans væri það sama á gömlu myndinni, þá mundi fjölbýlishúsið við Ofanelti 19-21 blasa við honum, en það stendur á því svæði þar sem 2. hola golfvallarins var áður.


Golfvöllur í Mjóumýri og Kringlumýri 1954

Golfvöllur í Mjóumýri og Kringlumýri 1954

Loftmynd frá svæðinu í Mjóumýri og Kringlumýri frá 1954. Inn á myndinni hafa golfbrautir verið litaðar og merktar með númerum. Einnig var reynt að merkja við útlínur flata og teiga eftir bestu getu, en sums staðar gat verið erfitt að greina það af myndinni og rétt er að hafa nokkurn fyrirvara á stærð flata og teiga. Nokkur mannvirki hafa verið merkt inn á myndina, klúbbhúsið sem stóð á útsýnisstað í Minni Öskjuhlíð, bæinn Efri Hlíð, sem nú er hús númer 68 við Stigahlíð og 3 útihús frá bænum sem stóðu skammt frá 6. flötinni. Á milli golfvallarins og Miklubrautar voru kálgarðar, reitir sem úthlutað var til bæjarbúa sem vildu rækta kál eða kartöflur og sjást þeir vel efst á myndinni.
Loftmynd: Borgarvefsjá.

Landsvæðið í Mjóumýri og Kringlumýri 2014

Með því að bera saman loftmyndir frá landsvæði í Mjóumýri og Kringlumýri frá 1954, þegar golfvöllur var á svæðinu við nýlega loftmynd af sama svæði, er hægt að sjá legu golfbrautanna á svæðinu. Á þessari mynd frá 2014, hafa brautir golfvallarins frá því 1954 verið felldar inn í það gjörbreytta landslag sem við þekkjum í dag.
Loftmyndir 1954 og 2014 teknar af Borgarvefsjá. /Frosti


Gamli golfvöllurinn og nágrenni hans 1947

Loftmynd Sigurhans Vignir af hluta Reykjavíkur sem tekin var 1947. Myndin er tekin úr norð-vestri. Golfvöllur bæjarins var vinstra megin við hitaveitustokkinn, en hitaveitutankarnir sjást í útjaðri myndarinnar hægra megin. Tveir misstórir ljósir flekar vinstra megin á myndinni, sýna vallarstæðið, en þeir eru aðskildir með gryfju og tjörn. Byggingin sem stendur á stærri flekanum er Stigahlíð 38, áður nefnd Efri-Hlíð. Skammt frá, á hæðinnni við stokkinn sést klúbbhúsið og lengst til vinstri á myndinni sjást kálreitir sem stóðu norðan við golfvöllinn. Möstur Landsímans sjást ofarlega á myndinni vinstra megin, nálægt hitaveitustokknum.
Ljósmynd: Sigurhans Vignir.


Powered by SmugMug Owner Log In