Landsvæðið í Mjóumýri og Kringlumýri 2014

Með því að bera saman loftmyndir frá landsvæði í Mjóumýri og Kringlumýri frá 1954, þegar golfvöllur var á svæðinu við nýlega loftmynd af sama svæði, er hægt að sjá legu golfbrautanna á svæðinu. Á þessari mynd frá 2014, hafa brautir golfvallarins frá því 1954 verið felldar inn í það gjörbreytta landslag sem við þekkjum í dag.
Loftmyndir 1954 og 2014 teknar af Borgarvefsjá. /Frosti


Á slóðum gamla golfvallarins. Loftmyndir.


Þeir eru sjálfsagt ekki margir sem muna eftir gamla golfvellinum í Reykjavík. Völlurinn sem fékk aldrei neina formlega skírn, var stundum nefndur Golfvöllurinn við Öskjuhlíð, var aðalvöllur klúbbsins og landsins alls, fram til 1963, en það ár fluttist starfsemi Golfklúbbs Reykjavíkur upp í Grafarholt.

Ástæða þess að golfvöllurinn var kenndur við Öskjuhlíð kemur eflaust til af því að fá kennileiti voru á golfvallarsvæðinu og svo því að klúbbhúsið reis í Minni-Öskjuhlíð, hæðinni sem er norðan megin við Bústaðaveginn. Nú er ekkert á þessu svæði sem bendir til að þar hafi verið golfvöllur og meira að segja helsta stolt félagsmanna, sjálft klúbbhúsið, er horfið. Þetta myndarlega félagsheimili sem félögum klúbbsins tókst einhvern veginn að fjármagna á fyrsta áratugi starfseminnar, stóð skammt frá þeim stað þar sem Veðurstofan hefur nú aðsetur sitt. Húsið á hæðinni markaði vestasta punkt umráðasvæðis klúbbsins, en völlurinn, sem hannaður var af fyrsta golfkennara landsins, Walt Arneson, lá austan og norðan við það, á gömlu mýrlendi, sem kallað hefur verið Mjóumýri og Kringlumýri. Á þessum slóðum er nú að finna verslunarmiðstöðina Kringluna og fjölmörg önnur fyrirtæki og híbýli í grennd.

Loftmyndir frá Borgarvefsjá

Myndirnar hér á síðunni eru loftmyndir sem fengnar hafa verið hjá Borgarvefsjá sem veitti klúbbnum góðfúslegt leyfi fyrir birtingu þeirra. Myndirnar sýna sama landsvæðið með sextíu ára millibili. Myndin neðst á síðunni er tekin árið 1954, þegar reykvískir kylfingar lömdu kúlur sínar á þessum slóðum. Útlínur brauta, flata og teiga hafa verið merktar inná myndirnar eftir bestu getu, en sums staðar var erfitt að greina útlínur flata og teiga á loftmyndinni. Þá eru númer brauta merkt inn og er þá miðast við skipulag vallarins frá 1946, en þá hófu menn leik á þeirri braut sem áður var sú fjórða í röðinni.

Síðari myndin, sú efri, er tekin árið 2014 og sýnir nákvæmlega sama landsvæði. Á þeirri mynd er búið að draga gömlu brautirnar inná með það fyrir augum að átta sig á legu þeirra með hliðsjón af þeim byggingum sem nú eru á svæðinu.

Frosti B. Eiðsson    

Golfvöllur í Mjóumýri og Kringlumýri 1954

Loftmynd frá svæðinu í Mjóumýri og Kringlumýri frá 1954. Inn á myndinni hafa golfbrautir verið litaðar og merktar með númerum. Einnig var reynt að merkja við útlínur flata og teiga eftir bestu getu, en sums staðar gat verið erfitt að greina það af myndinni og rétt er að hafa nokkurn fyrirvara á stærð flata og teiga. Nokkur mannvirki hafa verið merkt inn á myndina, klúbbhúsið sem stóð á útsýnisstað í Minni Öskjuhlíð, bæinn Efri Hlíð, sem nú er hús númer 68 við Stigahlíð og 3 útihús frá bænum sem stóðu skammt frá 6. flötinni. Á milli golfvallarins og Miklubrautar voru kálgarðar, reitir sem úthlutað var til bæjarbúa sem vildu rækta kál eða kartöflur og sjást þeir vel efst á myndinni.
Loftmynd: Borgarvefsjá.


Powered by SmugMug Owner Log In