Framtíðarsvæði lítur dagsins ljós


Þó völlurinn í Austurhlíð í Laugardal hafi verið fyrsti golfvöllur landins, var aldrei litið á hann sem varanlega aðstöðu fyrir klúbbinn. Fyrir það fyrsta var völlurinn aðeins sex holur og  þá var félagsaðstöðu mjög ábótavant. Stjórnendur klúbbsins voru því farnir að kíkja í kringum sig eftir svæði undir nýjan golfvöll, áður en fyrsta höggið var slegið á vellinum í Laugardal.


Í viðtali við Walt Arneson í Morgunblaðinu þann 23. júní 1935 þegar einungis hafði verið leikið á vellinum í Laugardal í nokkrar vikur, lýsti hann skoðun sinni á aðstöðunni í. ,,Völlurinn hjer er aðeins bráðabirgðavöllur og ekki fullnægjandi. En á meðan annar betri er ekki fyrir hendi, má vel notast við hann. Í sama viðtali kemur fram að Arneson hafi leitað að hentugu landi undir framtíðargolfvöll fyrir klúbbinn og hafi orðið vel ágengt. Í blaðinu segir Walt Arneson:

,,Jeg hafi farið víða um nágrenni Reykjavíkur til að athuga hvar best væri að koma upp góðum leikvelli. Og jeg hefi fundíð tilvalinn stað rjett utan við bæinn, sem uppfyllir öll skilyrði sem krafist er af góðum golfvelli, jafnvel svo að útlendingar, sem hingað koma, munu verða hrifnir af honum og hinu dásamlega útsýni, sem þar er. Hvar þetta svæði er, vil jeg ekki segja að svo stöddu. En stjórn Golfklúbbs Íslands hefir þetta mál til yfirvegunar og jeg vonast til þess, Reykvíkinga vegna, að mál þetta fái heppilega úrlausn."

Rúmu ári síðar en greint frá því í Kylfingi að klúbbstjórnin hafi skrifað bæjarráði og falast eftir landi undir nýjan golfvöll á Bústaðahálsi, sunnan við Kringlumýri. Í greinargerð klúbbstjórnarinnar fyrir landbeiðninni segir meðal annars:

,,Bæjarráð tók þessi rök til greina og leigði klúbbnum landið með tiltölulega góðum kjörum. Er leigusamningur dags. 8. júní 1936. Landið er 37,3 ha að stærð. Klúbburinn hefir nú látið girða mestallt landið, ræsta mýrar þess (Mjóumýri og sneið af Kringlumýri) og rækta um 40 dagsláttur (13 ha) í sumar. Er þess vænzt, að hægt verði að hefja leika á því næsta sumar. Þykir mörgum, sem fram hjá fara, landið fagurt á að líta, og hlakka til að geta farið að reyna sig á því. En húsið, vantar og peninga til að reisa það fyrir."

Völlurinn var tekinn í notkun í ágústbyrjun 1937, en sáð hafði verið í brautir árið áður. Völlurinn var í notkun í aldarfjórðung og var á því tímabili aðalvöllur landsins. Tólf Íslandsmót voru haldin á vellinum í Reykjavík, en þau áttu það öll sameiginlegt að aðeins var leikið í karlaflokki. Íslandsmót kvenna voru ekki enn komin til sögunnar þegar Golfklúbbur Reykjavíkur flutti þaðan vorið 1963.

Fyrsti golfkennarinn

Fyrsti golfkennarinn

Walt Arneson kom hingað til lands árið 1935 til að kenna félagsmönnum Golfklúbbs Íslands og það hlýtur að hafa verið ögrandi verkefni, þegar það er tekið inn í myndina að langflestir félagsmenn þekktu ekkert til íþróttarinnar. Walt tók það að sér að leita að framtíðarsvæði fyrir golfklúbbinn og gerði þau drög að legu golfbrautanna sem unnið var eftir.


Gamli golfvöllurinn og nágrenni hans 1947

Loftmynd af hluta Reykjavíkur sem tekin var 1947. Golfvöllur bæjarins var vinstra megin við hitaveitustokkinn, en hitaveitutankarnir sjást í útjaðri myndarinnar hægra megin. Tveir misstórir ljósir flekar sýna vallarstæðið, en þeir eru aðskildir með gryfju og tjörn. Byggingin sem stendur á stærri flekanum er Stigahlíð 38, áður nefnd Efri-Hlíð. Skammt frá, á hæðinnni við stokkinn sést klúbbhúsið og lengst til vinstri á myndinni sjást kálreitir sem stóðu norðan við golfvöllinn.
Ljósmynd: Sigurhans Vignir.


Powered by SmugMug Owner Log In