Á slóðum gamla golfvallarins

Þeir eru sjálfsagt ekki margir sem muna eftir gamla golfvellinum í Reykjavík. Völlurinn sem fékk aldrei neina formlega skírn, var oft nefndur Golfvöllurinn við Öskjuhlíð, var aðalvöllur klúbbsins og landsins alls, fram til 1963, en það ár fluttist starfsemi Golfklúbbs Reykjavíkur upp í Grafarholt.

Nú er ekkert á þessu svæði sem bendir til að þar hafi verið golfvöllur og meira að segja helsta  stolt félagsmanna, sjálft klúbbhúsið, er horfið. Þetta myndarlega félagsheimili sem félögum klúbbsins tókst einhvern veginn að fjármagna á fyrsta áratugi starfseminnar, stóð í Minni Öskjuhlíð, hæðinni norðan við Hafnarfjarðarveginn gamla, skammt frá þeim stað þar sem Veðurstofan hefur nú aðsetur sitt. Húsið á hæðinni markaði vestasta punkt umráðasvæðis klúbbsins, en völlurinn, sem hannaður var af fyrsta golfkennara landsins, Walt Arneson, lá austan og norðan við það, á gömlu mýrlendi, sem kallað hefur verið Mjóumýri og Kringlumýri. Á þessum slóðum er nú að finna verslunarmiðstöðina Kringluna og fjölmörg önnur fyrirtæki og híbýli í grennd.

Á þessu vefsvæði hefur verið leitast við að kynna þennan sögufræga völl fyrir klúbbfélögum og öðrum þeim sem áhuga hafa á sögu hans. Umfjöllunin er í formri stuttra frásagna og skýringartexta við ljósmyndir frá einstökum brautum. Ef einstaklingar eða félög eiga í fórum sínum gamlar ljósmyndir eða filmur frá þessum slóðum, þá væri það vel þegið að fá að skanna þær. Sömuleiðis væri mikill fengur af skemmtilegum endurminningum, en golfvöllurinn og umhverfi hans var vinsælt leiksvæði fyrir krakka úr nálægum hverfum. 

Loftmyndir frá Borgarvefsjá

Myndirnar hér að neðan eru loftmyndir sem fengnar hafa verið hjá Borgarvefsjá sem veitti klúbbnum góðfúslegt leyfi fyrir birtingu þeirra. Myndirnar sýna sama landsvæðið með sextíu ára millibili. Fyrri myndin er tekin árið 1954, þegar reykvískir kylfingar lömdu kúlur sínar á þessum slóðum. Útlínur brauta, flata og teiga hafa verið merktar inná myndirnar eftir bestu getu, en sums staðar var erfitt að greina útlínur flata og teiga á loftmyndinni. Síðari myndin er tekin árið 2014 og sýnir nákvæmlega sama landsvæði. Á þeirri mynd er búið að draga gömlu brautirnar inná með það fyrir augum að átta sig á legu þeirra með hliðsjón af þeim byggingum sem nú eru á svæðinu.

Frosti B. Eiðsson

Powered by SmugMug Owner Log In