Það var því miður kalt og rigningar vikum saman á Suðurlandi sumarið 1947. Um morguninn 5. ágúst, daginn sem við lögðum af stað, var indælasta veður og bjart. Daníel Fjeldsted ók með mig upp á golfvöll Reykjavíkur. Þaðan frá hæðinni er útsýni eitt hið fegursta, og mestur hluti borgarinnar blasir við sjónum. Í vestri Tjörnin, Hljómskálagarðurinn og Háskólinn, kaþólska kirkjan og önnur stórhýsi. Þaðan sést líka allur miðbærinn.
Valdimar Erlendsson (1950) Endurminningar frá Íslandi og Danmörku“
Þegar forráðamenn Golfklúbbs Íslands fengu augastað á landi fyrir nýjan golfvöll árið 1936, þá hefur næsta skref verið að finna stað fyrir klúbbhúsið. Því var valinn staður á hæð, rétt norðan við Öskjulíð, á landsvæði sem nefnt var ,,Minni Öskjulíð" en þaðan var ekki einungis gott útsýni yfir golfvallarsvæðið, heldur einnig yfir mestalla Reykjavík.
Ef hægt er að nefna einhvern faðir golfklúbbsins, þá væri það Gunnlaugur Einarsson, læknir, annar þeirra sem kynnti íþróttina fyrir velmektandi íbúum höfuðstaðarins. Gunnlaugur var formaður klúbbsins fá stofndegi til dánardags árið 1944, en hann komst svo að orði í bréfi til Sveins Björnssonar, sendiherra árið 1936. ,,Um þetta land má ennfremur segja, að af hæðinni þar sem klúbbhúsið á að standa, er eitt fegursta útsýni yfir Faxaflóa og golfsalurinn hannaður þannig teiknaður að hennar nýtur sem í udkigsturni væri."
Mynd sem birtist af golfskálanum í Vikublaðinu Fálkanum 1. október 1938, skömmu eftir að Friðrik ríkiserfingi Dana og eiginkona hans Ingrid krónprinsessa komu á golfvöllinn í opinberri heimsókn sinni hingað til lands. Myndin virðist vera samsett - mynd af klúbbhúsinu hefur verið sett í forgrunn.
Horft frá Golfskálahæðinni í átt að vellinum. Lengst til vinstri glittir í Efrihlíð og húsin fyrir miðju myndarinnar eru útihús frá Efrihlíð. Vinstra megin á myndinni má sjá kofa í Kálgörðunum, sem voru norðan megin við 5. brautina.
Frá vinstri: Halldór Magnússon, Albert Wathne,
Ingólfur Isebarn, Gunnar Sólnes, Ólafur Loftsson, Helgi Hermann Eiríksson.
Einu verksummerki gamla klúbbhússins sjást á þessari mynd, en það eru nokkrir steypumolar á þeim stað þar sem húsið stóð.
Horft frá Golfskálahæðinni yfir hluta þess lands sem áður var nýttur til golfleiks. Gula húsið á miðri mynd er Stigahlíð 68, sem áður hét Efrihlíð.
Íbúðarhúsið að Stigahlíð 68 var reist árið 1937, sama ár og Golfklúbbur Íslands reisti sitt klúbbhús á hæðinni fyrir ofan. Samvistirnar voru ekki alltaf á góðum nótum, sérstaklega til að byrja með.
Golfskálahæðin hefur að geyma merkilegar minjar, steina sem jöklar hafa rist á á ísaldarskeiði fyrir einhverjum tugþúsunda ára. Það er skrýtið til þess að hugsa að eitt sinn hafi nær allt höfuðborgarsvæðið verið undir sjávarmmáli. Það eina sem stóð upp úr var hluti Öskjuhlíðar og Laugaráss.