HOLA 3 PAR 4
Leikin sem 6. hola á árunum 1937-45
LENGD: 306
METRAR
Sérregla: Bolti sleginn norður í gryfjuna er utan vallar.

Vippað inn á 3. flöt 1962
Ingólfur Isebarn vippar inn á 3. flöt. Nýbyggð raðhús við Hvassaleiti (áður Seljalandsvegur og Mjóumýrarvegur) í baksýn. Blokkin sem er á milli þeirra stendur á horni Listabrautar og Háaleitisbrautar. Myndin er tekin sumarið 1962, en vorið eftir var starfsemi klúbbsins flutt austur í Grafarholt.
Ljósmynd: Borgarskjalasafn/Einkasafn Goflklúbbs Reykjavíkur.
Meistaramótið dæmalausa 1946
Meistaramót klúbbsins á sér rúmlega áttatíu ára sögu og eins og gefur að skilja hafa ýmis atvik komið upp sem hafa haft áhrif á framkvæmd þeirra. Segja má þó að Meistaramótið 1946 sé algjört einsdæmi, en það ár urðu mótin tvö, eftir það fyrra hafði verið úrskurðað ógilt. Aðalleikararnir í þessu máli voru kylfingarnir sem áttu að leika til úrslita, en óhætt er að segja að þeir hafi verið tveir af þekktari félögum klúbbsins. Þorvaldur Ásgeirsson, 29 ára heildsali, sem orðið hafði Íslandsmeistari í golfi árið áður. Faðir hans, Ásgeir Ólafsson, var einn framámanna klúbbsins á fyrstu árum hans. Mótherji hans Jakob V. Hafstein var enn þekktari, að minnsta kosti á landsvísu. Jakob var liðlega þrítugur, söngvari í hinum vinsæla MA-kvartett, sem eins og nafnið ber til kynna var stofnað í Menntaskólanum á Akureyri. Þá var hann ágætur listmálari og kylfingur, þó hann sinnti öllu þrennu í hjáverkum frá aðalstarfi sínu, lögmennskunni.
Holukeppni algengasta keppnisformið
Á fyrstu áratugum Meistaramótsins var holukeppni helsta keppnisformið, en sá háttur var þó hafður á að leikinn var höggleikur fyrsta daginn, til að raða keppendum upp fyrir holukeppnina. Í mótinu 1946 var það Benedikt Bjarklind sem lék best í undirbúningskeppninni þann 31. ágúst en hann féll úr leik strax daginn eftir, er hann laut í lægra haldi fyrir Jakobi. Svo fór að Jakob komst alla leið í úrslitaleikinn þar sem hann átti að mæta Þorvaldi Ásgeirssyni og skyldi einvígið fara fram á tímabilinu 5.-7. september, eftir nánari samkomulagi þeirra tveggja.
Beðið um frestun á úrslitaleiknum
Þann 7. september hafði þó engin keppni farið fram en þann dag lagði Jakob fram beiðni um að úrslitaleiknum yrði frestað. Kappleikjanefnd klúbbsins synjaði beiðninni samdægurs, með þeim rökum að frestun bryti í bága við reglur mótsins sem kváðu um að úrslitaleikurinn skyldi leikinn innan ákveðins tíma, en sú ábyrgð hvíldi á keppendum að koma sér saman um tíma. Nefndin var því komin í nokkra klípu því ekki virtist vera neinn flötur á að ljúka mótinu eða nefna sigurvegara.
Þann 13. ágúst var fundur hjá kappleikjanefnd að nýju og farið var yfir skriflegar skýrslur frá keppendum þar sem þeim gafst tækifæri til að gera grein fyrir sinni hlið á málinu.
Skilaboð Jakobs komust ekki rétt til skila
Jakob, sem var framkvæmdastjóri Landsambands útgerðarðarmanna - LÍÚ, á þessum tíma, greindi frá því að hann hefði sammælst við Þorvald um að heyja einvígi sitt föstudaginn 6. september. Skömmu áður en að leikur þeirra átti að hefjast, hefði hann hins vegar þurft að sinna mikilvægu erindi í vinnu sinni, sem komið hefði skjótt upp og hafi ekki þolað bið. Hann hafi því séð sig tilknúinn til að óska eftir því að viðureigninni yrði seinkað og fengið aðstoðarmann sinn á skrifstofunni til að koma þeim skilaboðum áleiðis til Þorvaldar og Björns Péturssonar, sem fyrirhugað var að gengi með þeim sem dómari. Jakob greindi frá því í bréfinu að skilaboðin hefðu afbakast í meðförum aðstoðarmannsins og ekki náðist samkomulag um leiktíma. Síðar hafi hann frétt af því að Þorvaldur hefði reynt að ná tali af honum síðar um daginn, en á laugardeginum þegar hann reyndi að ná tal af Þorvaldi, hafi hann verið utanbæjar. Þar með hefði það verið ljóst að ekki yrði unnt að leika úrslitaleikinn innan þess tímaramma sem getið var um í mótsreglunum.
Tveir kostir og báðir slæmir
Taldi Jakob að stjórn klúbbsins þyrfti að velja á milli tveggja kosta. Að heimila þeim Þorvaldi að leika til úrslita á nýjum tíma, sem hefði verið á svig við keppnisreglur, eða ógilda keppnina að öðrum kosti og efna til nýrrar keppni. Í bréfi Þorvaldar kemur fram að hann fallist á þessi rök.
Málið var tekið fyrir hjá stjórn klúbbsins sem komst að þeirri niðurstöðu að ógilda bæri meistaramótið og blása til nýrrar keppni. Taldi stjórnin að þrátt fyrir skamman fyrirvara væri best að setja upp auglýsingu í klúbbhúsinu, en ekki með blaðatilkynningum, til að forðast frekari leiðindi og umtal í bænum en orðið væri en jafnframt tóku keppendur að sér að láta sem flesta vita af keppninni.
Úrslitin í þessu síðara Meistaramóti ársins 1946 urðu mjög á annan veg en í fyrri keppninni. Jakob stóð sig reyndar mjög vel í Undirbúningskeppninni og lék á 74 höggum og hafði þar nokkra yfirburði. En það fór eins fyrir honum og Benedikt í fyrra mótinu - hann var sleginn út í fyrstu umferð í holukeppninni. Þorvaldur var ekki á meðal keppenda en Reykjavikurmeistari 1946 varð Helgi Eiríksson. Hann hafði betur í úrslitaleik gegn Benedikt Bjarklind.

Myndir frá 3. holu
Ingólfur Isebarn slær teighögg á 3. holu sem leikin var í norðurátt. Fjölbýlishúsið í byggingu vinstra megin er Hvassaleiti 153-157 sem stendur nú á horni Listabrautar og Háaleitisbrautar. Handan Háaleitisbrautar er fjölbýlishúsið í Stóragerði 34-38. Bæði húsin voru byggð 1961. Önnur hús á þessari mynd, sem enn eru uppistandandi er stóra blokkin á hæðinni að Grensásvegi 56-60 og hálfkláraða íbúðarhúsið sem sést í hægra megin á myndinni sem stendur við Stóragerði.
Ingólfur Isebarn vippar inn á 3. flöt. Nýbyggð raðhús við Hvassaleiti (áður Seljalandsvegur og Mjóumýrarvegur) í baksýn. Blokkin sem er á milli þeirra stendur á horni Listabrautar og Háaleitisbrautar. Myndin er tekin sumarið 1962, en vorið eftir var starfsemi klúbbsins flutt austur í Grafarholt. Ljósmynd: Borgarskjalasafn/Einkasafn Goflklúbbs Reykjavíkur.
3. teigur var við SA-horn þessarar byggingar í Efstaleiti 5 sem nú hýsir Lögmannsstofuna Logos - Flötin var fyrir austan stórhýsið að Hvassleiti 56-8 (Breiðablik) en þar er að finna íbúðir fyrir aldraða.