HOLA 2 PAR 3
Leikin sem 5. hola á árunum 1937-1946
LENGD: 145
METRAR
Sérregla: Bolta í gryfjunni og á bakkanum má leggja innan tveggja kylfulengda í beina línu fjær holu, en ekki til hliðar. (Annars ósláanleg).

Ingólfur slær af 2. teig
Ingólfur Isebarn slær á 2. teig. Myndin er sennilega tekin seint á sjötta áratug síðustu aldar í svart/hvítu en virðist hafa verið lituð. Í bakgrunninum má sjá nyrstu brautir vallarins og kofaþyrpingu við kálgarðana. Húsin vinstra megin á myndinni standa við Boga- og Grænuhlíð. Húsin sem standa á hæðinni hægra megin eru sennnilega hús við Skafta- og Bólstaðarhlíð.
Ljósmynd: Úr safni Guðlaugs Guðjónssonar.
Doktor Hansen fór holu í höggi vorið 1939
Halldór Hansen, fimmtugur yfirlæknir á Landakotsspítala, varð fyrstur Íslendinga til að fara holu í höggi. Það var á þessari holu, en hún var þeim tíma leikin sem 5. hola vallarins, þar sem númeraröð brauta á vellinum var breytt árið 1946. Þetta högg, sem heldur nafni Halldórs á lofti um ókomna tíð í golfannálum, var slegið þann 14. maí 1939, en þá fór fram Flokkakeppni klúbbsins. Keppnin var leikin með holukeppnisfyrirkomulagi sem var algengasta leikformið í þá daga. Halldór sem lék í 2. flokki lenti á móti Dr. Gunnlaugi Einarssyni, formanni og öðrum stofnanda klúbbsins og hafði betur í einvíginu. Þess má geta að ungur læknanemi og hratt vaxandi kylfingur, Gísli Ólafsson hreppti sigur í þessum flokki, en Gísli átti eftir að láta mikið að sér kveða á næstu árum.
Halldór var eini einherji klúbbsins í rúm fjögur ár, en í ágúst 1943 lék Robert Waara, starfsmaður bandaríska varnarliðsins sama leikinn og var það jafnframt á þessari holu. Hinn finnskættaði Waara var sennilega besti kylfingur klúbbsins og jafnframt sá vinsælasti, því hann kenndi félögum klúbbsins íþróttina án endurgjalds. Hann varð einherji daginnn fyrir þrítugasta afmælisdag sinn og höfðu menn á orði í tímariti klúbbsins; Kylfingi að hann skildi vel við tugina þrjá. Ári eftir að hafa náð draumahögginu giftist Waara kvennameistara klúbbsins, Ólafíu Sigurbjörnsdóttir og þau hófu búskap vestanhafs sama ár.
Myndir: Halldór Hansen t.v., Robert Waara t.h.

Ljósmyndir frá 2. holu
Ingólfur Isebarn slær á 2. teig. Myndin er sennilega tekin seint á sjötta áratug síðustu aldar í svart/hvítu en virðist hafa verið lituð. Í bakgrunninum má sjá nyrstu brautir vallarins og kofaþyrpingu við kálgarðana. Húsin vinstra megin á myndinni standa við Boga- og Grænuhlíð. Húsin sem standa á hæðinni hægra megin eru sennnilega hús við Skafta- og Bólstaðarhlíð. Ljósmynd: Úr safni Guðlaugs Guðjónssonar.