HOLA 1  PAR 5

Leikin sem 4. hola á árunum 1937-45.


LENGD: 440

METRAR

Sérregla: Úr skurðinum má taka bolta og láta falla á bakkann nær teig. Bolti í gryfjunni er utan vallar.


Við fyrsta teig 1962

Kylfingar hefja leik á Öskjuhlíðarvelli snemmsumars 1962. Frá vinstri: Kári Elíasson, Geir Þórðarson, Jón Thorlacius, Albert Wathne, Halldór Magnússon, Pétur Björnsson, Sveinn Snorrason. Á teignum slær Jóhann Sófusson. Sjá má á þessari mynd að teigurinn lá skammt frá hitaveitustokknum, en stokkurinn lá meðfram 1. og 2. brautinni. Fjölbýlishúsin vinstra megin á myndinni standa enn vð Stóragerði og fyrir miðju í fjarska er Grensásvegur 56-60. Sunnan við hitaveitustokkinn sjást braggar frá stríðsárunum við Bústaðaveg. Mannvirki sem nú er að finna á brautarsvæðinu eru meðal annars Kringlumýrarbrautin og Verslunarskólinn.
Úr myndasafni: Arnkels B. Guðmundssonar.


Berserkur 1944: Gísli sló lengst en Helgi sigraði


Í september 1944 kepptu íslenskir kylfingar í fyrsta skipti um það hver gæti slegið lengstu teighöggin, en þá stóð Golfklúbbur Íslands fyrir keppninni Berserkur á Öskjuhlíðarvelli. Átján kylfingar skráðu sig til leiks og keppnisstaðurinn var einmitt á þessari braut, þeirri fyrstu á keppnisvelli klúbbsins, (eins og völlurinn var leikinn frá 1946) en hún var lengsta braut vallarins.


Í Kylfingi frá 1945 er aðstæðum á keppnisdaginn lýst þannig: ,,Teigurinn var afmarkaður rétt fyrir neðan flötina og því var slegið á móti venjulegri höggstefnu. Var því nokkur halli í vil keppendum. Þó er brautin nokkuð öldótt neðan til og er því all mikil heppni háð, hvort boltinn veltur vel eða illa eftir að hann snertir jörðina. All snörp gola var á og stóð skáhallt á skotlínu, en þó verður að telja að hún hafi verið fremur í vil," segir í Kylfingi.  

,, Völlurinn var hins vegar mjög blautur og gljúpur og nokkuð loðinn, svo að boltarnir skoppuðu lítt eða ekki og sukku jafnvel í mörgum tilfellum," segir jafnframt í greininni. Ljóst er af lýsingunni að aðstæður til keppni voru ekki hinar ákjósanlegustu.  

Íslandsmeistari síðustu þriggja ára, Gísli Ólafsson, átti tvö lengstu höggin og mældust þau 212 og 208 metrar. Benedikt Bjarklind, ritstjóri Kylfings sló 193 metra og 188 metra. Ewald Berndsen átti einnig högg upp á 188 metra og sjötta lengsta högg keppninnar átti Helgi Eiríksson, 187 metra.

Þrátt fyrir að Helgi stæði Gísla langt að baki í högglengd, var það sá fyrrnefndi sem stóð upp sem sigurvegari. Reglur keppninnar voru nefnilega á þá leið að hver keppandi sló sex högg og var meðaltalslengd þessara sex högga látinn ráða úrslitum. Aðeins voru mæld högg sem enduðu á braut. Munaði þar mestu um að Helga tókst að hitta brautina í öllum höggum sínum. Samtals sló hann 1036 metra eða tæplega 173 metra að meðaltali. Þrír boltar Gísla höfnuðu hins vegar utan vallar og hann varð að gera 9. sætið sér að góðu.

Á myndinni hér til hliðar sést Gísli horfa á eftir upphafshöggi á Íslandsmótinu 1944.

Untitled photo

Ljósmyndir - 1. hola

 • Eftir teighögg

  Kylfingar á fyrstu brautinni eftir teighögg. Myndin er sennilega tekin árið 1962 á þeim stað þar sem Kringlumýrarbraut er í dag. Hús frá stríðsárunum sunnan við hitaveitustokkinn. Ljósmynd: Úr safni Guðlaugs Guðjónssonar.

 • Upphafshögg Halldórs á 1. braut

  Á 1. teig. Halldór Bjarnason slær upphafshögg. Húsin þrjú í bakgrunni eru sennilega útihús frá bænum Efrihlíð (Stigahlíð 68) sem sést lengst til vinstri á myndinni. Fjölbýlishús við Blönduhlíð og Bogahlíð sjást vinstra megin. Myndin er tekin um 1960. Úr myndasafni Guðlaugs Guðjónssonar.

 • Teighögg 1962

  Kári Elíasson slær á 1. teig á Öskjuhlíðarvelli sumarið 1962. Í bakgrunni sjást byggingarnar þrjár sem sennilega hafa verið útihús vinstra megin. Hægra megin á myndinni sést fjölbýlishús í byggingu (Stigahlíð 30-32) og hluti af 6. brautinni sem síðar fór undir einbýlishúsalóðir í Stigahlíð.

 • Við fyrsta teig 1962

  Kylfingar hefja leik á Öskjuhlíðarvelli snemmsumars 1962. Frá vinstri: Kári Elíasson, Geir Þórðarson, Jón Thorlacius, Albert Wathne, Halldór Magnússon, Pétur Björnsson, Sveinn Snorrason. Á teignum slær Jóhann Sófusson. Sjá má á þessari mynd að teigurinn lá skammt frá hitaveitustokknum, en stokkurinn lá meðfram 1. og 2. brautinni. Fjölbýlishúsin vinstra megin á myndinni standa enn vð Stóragerði og fyrir miðju í fjarska er Grensásvegur 56-60. Sunnan við hitaveitustokkinn sjást braggar frá stríðsárunum við Bústaðaveg. Mannvirki sem nú er að finna á brautarsvæðinu eru meðal annars Kringlumýrarbrautin og Verslunarskólinn. Úr myndasafni: Arnkels B. Guðmundssonar.

 • Rube á 1. flöt 1938

  Rube Arneson, kennari klúbbsins púttar á 1. flötinni árið 1938, sem á þeim tíma var leikinn sem 4. hola. Myndin er tekin í vesturátt. Ljósmynd: Borgarskjalasafn/Einkasafn GR.


Golf er mjög svipað hjónabandinu — það virðist þeim svo ofur auðvelt, sem ekki hafa reynt það.

Lesbók Morgunblaðsins, 5. júlí 1942, 216.

Umhverfi 1. brautar sem lá frá vestri til austurs: Í nágrenni við 1. teig - vallarsði brautar (mynd tekin vinstra megin á 1. braut - Flötin.


Powered by SmugMug Owner Log In