Á vígsludegi Austurhlíðavallar
Hópur félagsmanna stillti sér upp fyrir myndatöku þann 12. maí 1935 en þá var golfvöllurinn í Austurhlíð í Laugardal tekinn í notkun. Klúbbhúsið var gamall sumarbústaður. Ljósmynd: Úr safni GSÍ.
Gottfred Bernhöft, kaupmaður og stjórnarmaður í Golfklúbbi Íslands púttar á lokaholunni á Austurhlíðarvelli. Ekki er ólíklegt að um púttæfingu sé að ræða, en maðurinn sem snýr að myndavélinni er Walter Arneson, fyrsti golfkennari klúbbsins. Húsið sem er í sjónlínu við kylfingana er klúbbhúsið, gamall sumarbústaður í eigu Carl Olsen. Byggingarnar vinstra megin eru svínabú Olsen og að öllum líkindum hestshús, en sjá má hesta á beit á túninu fyrir framan húsin. Lækurinn í forgrunni er Laugalækur og vegurinn hægra megin við klúbbhúsið er Reykjavegur.
Vel klædd frú býr sig undir að slá af 2. teig á Austurhlíðarvelli, þar sem bílastæði sundlaugarinnar í Laugardal er nú. Þeir sem fylgjast með eru Walter Arneson golfkennari, Gottfred Bernhöft kaupmaður., Gunnar Guðjónsson skipamiðlari og stjórnarmaður í klúbbnum og Helgi Hermann Eiríksson verkfræðingur og varaformaður klúbbsins. Gömlu sundlaugarnar sjást lengst til vinstri á myndinni, en þær nýju risu nokkrum metrum frá íbúðarhúsinu vð Sundlaugaveg sem sést hægra megin á myndinni. Það hús var jafnan kallað Víðivellir og var í eigu Carl Olsen, stórkaupmanns sem fékk Austurhlíðarlandið í erfðafestu og kom upp svínabúi á jörðinni. Húsið var rifið á áttunda áratug síðustu aldar.
Fyrsta klúbbhúsið var sumarbústaður Einars Egilssonar, sem klúbburinn tók á leigu í Laugardalnum. Leikið var golf á vellinum sumarið 1936 og fyrri hluta sumarsins á eftir. Myndin er tekin frá Reykjavegi og húsið í baksýn er Víðivellir en það stóð við Sundlaugarveg, rétt þar sem sundlaugarnar eru nú. Ljósmynd: Borgarskjalasafn /Einkasafn GR
W. Phillip Scott einn af eigendum og framkvæmdastjórum enska fyrirtækisins Unilever Ltd. afhendir stjórn klúbbsins meistarabikarinn (Lever Challenge cup) sem keppt var um í fyrsta skipti árið 1935. Myndin er tekin 12. ágúst 1935 fyrir utan félagsheimili klúbbsins í Laugardal. Frá vinstri: Helgi Hermann Eiríksson, Gottfred Bernhöft, Gunnar Guðjónsson, Phillip Scott, Gunnlaugur Einarsson, óþ., óþ, Walter Arneson golfkennari. Ljósmynd: Borgarskjalasafn /Einkasafn GR