Söguvefur: Ljósmyndasaga GR í 80 ár

Flestar ljósmyndir sem eru á söguvefnum eru afrakstur söfnunar undirritaðs, Frosta B. Eiðssonar og Elíasar Kárasonar, félaga í GR á gömlum myndum. Elías viðraði hugmyndina í kaffispjalli á afmælisdegi klúbbsins fyrir fimm árum þegar 75 ára afmælisins var minnst.Hann vildi beita sér fyrir varðveislu mynda sem hann óttaðist að mundu lenda í glatkistunni og koma þeim á miðlægan grunn.

Þetta verkefni hefur eiginlega snúist um þrennt. Að koma ljósmyndum í eigu Golfklúbbs Reykjavíkur og öðrum ljósmyndum sem tengjast starfsemi hans, á rafrænt form og í örugga geymslu. Reynt var eftir megni að lífga upp á ljósmyndir, sem margar hverjar voru farnar að láta á sjá.

Í öðru lagi fannst okkur það skylda okkar að greina efni myndanna. Af hverju(m) er myndin, hvenær var hún tekin og af hvaða tilefni? Ljósmyndir hafa einfaldlega meira vægi ef það er saga á bakvið þær, heldur en myndir af ókunnugu fólki, ó ókunnum stað á óræðnum tíma.

Í þriðja lagi fannst okkur það nauðsynlegt að koma þessari sögu- og  menningararfleið klúbbsins fyrir almenningssjónir. Vonandi geta sem flestir félagsmenn, sem og aðrir sem hafa áhuga á sögu klúbbsins haft gagn og gaman af því að skoða sig um á sögusvæðinu.

Ljósmyndirnar koma héðan og þaðan. Söfnunin hófst á Borgarskjalasafninu, þar sem flest eldri skjöl Golfklúbbs Reykjavíkur hafa verið í geymslu undanfarin áratug. Þar fundust ljósmyndir innan um ýmis önnur skjöl í 4-5 pappaöskjum og komum við þeim á rafrænt form og löguðum til eftir megni.

Aðrir stórir akrar voru geymslur klúbbsins á Korpúlfsstöðum og í geymslur GSÍ í Laugardal. Þá komu fjölmargir einstaklingar við sögu og má þar nefna Geir Þórðarson, Arnkel B. Jóhannsson, Kára Elíasson, Viðar Þorsteinsson að ónefndum Jóhanni Eyjólfssyni, fyrrum Íslandsmeistara, sem auk þess að skilja eftir sig ljósmyndir, tók nokkrar kvikmyndir. Félagshjartað sló sterkt hjá þessum mönnum, eins og hjá svo mörgum öðrum af þeirra kynslóð. Án þeirra framlags væru nokkrir kaflar í ljósmyndasögunni enn óskrifaðir, sérstaklega á það við um uppbyggingarárin í Grafarholti á sjöunda áratug síðustu aldar. Áhugi margra eldri félaga á að sjá þetta safn verða að veruleika var okkur Elíasi mikil hvatning, en eflaust hefði safnið aldrei orðið til í þessari mynd, ef ekki hefðii komið til styrkur frá stjórn golfklúbbsins og framkvæmdastjóra  til undirritaðs til að sigla verkefninu í höfn.

Elstu ljósmyndirnar í safninu eru frá árinu 1935 þegar klúbburinn sem þá hét Golfklúbbbur Íslands hafði til umráða sex holu völl í Laugardalnum, nálægt því svæði þar sem sundlaugarnar og aðalleikvangurinn er. Klúbburinn var með starfsemi sína þar í rúm tvö ár, en aðeins eru til sex ljósmyndir frá þeim tíma, flestar teknar við klúbbhúsið á vígsludaginn 12. maí 1935. Mjög misjafnt er hvað til er af ljósmyndum eftir árum og eru eflaust margvíslegar ástæður fyrir því.

Eitt er það sem reynst hefur erfitt, en það er að finna nöfn þeirra sem tóku myndirnar. Í þessum myndaleiðangri hefur það heyrt til undantekninga að sjá myndir merktar höfundi þeirra. Á þessum vef er ljósmyndara ávallt getið, sé nafn hans vitað, annars er eingöngu getið um það úr hvaða safni ljósmyndin var fengin.

Frosti B. Eiðsson


Ýmsar ljósmyndir úr sögu klúbbsins

  • Á vígsludegi Austurhlíðavallar

    Á vígsludegi Austurhlíðavallar

    Hópur félagsmanna stillti sér upp fyrir myndatöku þann 12. maí 1935 en þá var golfvöllurinn í Austurhlíð í Laugardal tekinn í notkun. Klúbbhúsið var gamall sumarbústaður. Ljósmynd: Úr safni GSÍ.

  • Grafarholtið 1964, fyrsta brautin.
Ljósmynd: Viðar Þorsteinsson.

    Grafarholtið 1964, fyrsta brautin. Ljósmynd: Viðar Þorsteinsson.

  • Íslandsmótið á Akureyri 1958

    Íslandsmótið á Akureyri 1958

    Ráshópur á Íslandsmótinu í golfi 1958. Frá vinstri: Jóhann Eyjólfsson GR, Sveinn Ársælsson GV, Hermann Ingimarsson GA, Sigtryggur Júlíusson GA. Ljósmynd: Úr safni Jóhanns Eyjólfssonar.

  • Golfkennsla

    Golfkennsla

    Magnús Guðmundsson, Íslandsmeistari frá Akureyri var ráðinn til þess vandasama starfs að koma Grafarholtsvelli í gott horf fyrir Íslandsmótið 1965 og til að sjá um golfkennslu. Myndin er af Magnúsi að störfum. Nýsteyptur golfskálinn í baksýn og á myndinni sést vel hvar bráðabirgðaskúrinn var staðsettur. Ljósmynd: Úr geymslum GR

  • Íslandsmótið 1942

    Íslandsmótið 1942

    Keppenndur á fyrsta Íslandsmótinu sem haldið var árið 1942 á Öskjuhlíðavellinum. Að baki kylfingunum er hátt æfinganet. Ljósmynd: Vignir/Úr geymslum GR

  • Íslandsmót karla 1967

    Íslandsmót karla 1967

    Gunnar Sólnes stendur við flaggið á lokaholunni. Í bakgrunni má t.d. þekkja Viðar Þorsteinsson, Ólaf Loftsson, Ólaf Hafberg, Engilbert Hafberg og Karl Karlsson. Ljósmynd: Úr safni Júlíusar Júlíussonar.

  • Untitled photo
  • Untitled photo
  • Bændaglíman 1966

    Bændaglíman 1966

    Lagið tekið með trompi. Frá vinstri: Arnkell B. Guðmundsson, Kristinn Hallsson og Geir Þórðarson. Ljósmyndari Kristján Magnússon.

Powered by SmugMug Owner Log In