Flestar ljósmyndir sem eru á söguvefnum eru afrakstur söfnunar Frosta B. Eiðssonar og Elíasar Kárasonar, félaga í GR á gömlum myndum. Elías viðraði hugmyndina í kaffispjalli á afmælisdegi klúbbsins fyrir fimm árum þegar 75 ára afmælisins var minnst.Hann vildi beita sér fyrir varðveislu mynda sem hann óttaðist að mundu lenda í glatkistunni og koma þeim á miðlægan grunn.

Flestar eldri ljósmyndir í eigu klúbbsins er að finna í Einkaskjalasafni klúbbsins sem er í geymslu Borgarskjalasafnsins og nokkuð var um nýlegri myndir í geymslum klúbbsins að Korpúlfsstöðum. Það lá beinast við að hefja söfnuna á Borgarskjalasafninu, en síðan var leitað til félaga í klúbbnum sem tekið höfðu myndir, eða haldið ljósmyndum til haga.


Fjölmargir einstaklingar lögðu þessu safni lið á einn eða annan hátt

Þá tók við greining og flokkun myndanna, því eins og skáldið sagði eitt inni: ,,Hvers virði er landslag sem heitir ekki neitt?" Þó þeirri spurningu hafi verið varpað þessu fram með nokkurri kaldhæðni, hefur okkur sem stöndum að þessu safni fundið mikinn sannleik í. Ljósmyndir hafa ekki mikið sögulegt gildi, þegar ekki er vitað af hvaða tilefni þær eru teknar og af hverjum þær eru. Lokahnykkurinn og flestar ljósmyndir áranna frá 1990-2000 var að finna í geymslum klúbbsins á Korpúlfsstöðum


Safnið er ekki einskorðuð við Golfklúbb Reykjavíkur, þó flestar ljósmyndirnar tengist sögu klúbbsins á einhvern hátt. Elstu ljósmyndirnar í safninu eru frá árinu 1935 þegar klúbburinn sem þá hét Golfklúbbbur Íslands hafði til umráða sex holu völl í Laugardalnum, nálægt því svæði þar sem sundlaugarnar og aðalleikvangurinn er. Klúbburinn var með starfsemi sína þar í rúm tvö ár, en aðeins eru til sex ljósmyndir frá þeim tíma, flestar teknar við klúbbhúsið á vígsludaginn 12. maí 1935. Síðla sumars 1937 byggði klúbburinn níu holu völl og veglegt klúbbhús, sem stóð á þeim stað sem nefndist Minni-Öskjuhlíð Af sérlega áhugaverðum myndasöfnum á þessum vef má nefna safn Viðars Þorsteinssonar, félaga í GR, frá Landsmótinu í Vestmannaeyjum árið 1964 sem Magnús Guðmundsson sigraði með yfirburðum. Viðar tók einnig nokkrar skemmtilegar ljósmyndir á þeim árum þegar GR-ingar voru að koma sér fyrir í Grafarholtinu, snemma á 7. áratugnum. Margar ljósmyndir frá þessum uppbyggingarárum í Grafarholrti er einnig að finna í söfnum Geirs Þórðarsonar, Arnkels Guðmundssonar, Jóhanns Eyjólfssonar og Kára Elíassonar.Af öðrum söfnum má nefna safn frá Árna Egilssyni, sem dóttir hans lét í té og teknar voru á Íslandsmótinu 1944 sem haldið var á bökkum Héraðsvatna í Skagafirði á túnum sem slegin voru rétt fyrir mótið. Eitt er það sem reynst hefur erfitt, en það er að finna nöfn þeirra sem tóku myndirnar. Í þessum myndaleiðangri hefur það heyrt til undantekninga. Á þessum vef er ljósmyndara ávallt getið, sé nafn hans vitað, annars er eingöngu getið um það úr hvaða safni ljósmyndin var fengin.


Photos

 • Meistarabikar

  W. Phillip Scott einn af eigendum og framkvæmdastjórum enska fyrirtækisins Unilever Ltd. afhendir stjórn klúbbsins meistarabikarinn (Lever Challenge cup) sem keppt var um í fyrsta skipti árið 1935. Myndin er tekin 12. ágúst 1935 fyrir utan félagsheimili klúbbsins í Laugardal. Frá vinstri: Helgi Hermann Eiríksson, Gottfred Bernhöft, Gunnar Guðjónsson, Phillip Scott, Gunnlaugur Einarsson, óþ., óþ, Walter Arneson golfkennari. Ljósmynd: Borgarskjalasafn /Einkasafn GR

 • Á vígsludegi Austurhlíðavallar

  Hópur félagsmanna stillti sér upp fyrir myndatöku þann 12. maí 1935 en þá var golfvöllurinn í Austurhlíð í Laugardal tekinn í notkun. Klúbbhúsið var gamall sumarbústaður. Ljósmynd: Úr safni GSÍ.

 • Íslandsmót 1944

  Frá vinstri: Lárus Ársælsson GV, Gísli Ólafsson GR og Sveinn Ársælsson GV.

 • Íslandsmót 1944

  Jóhannes Helgason GR og Gísli Ólafsson GR takast í hendur fyrir úrslitaleik þeirra á Íslandsmótinu í Skagafirði 1944. Ljósmynd: Árni Egilsson.

 • Golfkennsla

  Magnús Guðmundsson, Íslandsmeistari frá Akureyri var ráðinn til þess vandasama starfs að koma Grafarholtsvelli í gott horf fyrir Íslandsmótið 1965 og til að sjá um golfkennslu. Myndin er af Magnúsi að störfum. Nýsteyptur golfskálinn í baksýn og á myndinni sést vel hvar bráðabirgðaskúrinn var staðsettur. Ljósmynd: Úr geymslum GR

 • Íslandsmótið 1942

  Keppenndur á fyrsta Íslandsmótinu sem haldið var árið 1942 á Öskjuhlíðavellinum. Að baki kylfingunum er hátt æfinganet. Ljósmynd: Vignir/Úr geymslum GR

 • Á 3. teig í Hvassaleiti

  Ingólfur Ísebarn slær teighögg á þriðja teig á Öskjuhlíðarvelli; Hvassaleitið/Grensás í baksýn.

 • Bændaglíman 1966

  Lagið tekið með trompi. Frá vinstri: Arnkell B. Guðmundsson, Kristinn Hallsson og Geir Þórðarson. Ljósmyndari Kristján Magnússon.

 • Á 3. braut í Hvassaleiti

  Ingólfur Isebarn vippar inná þriðju flöt á Öskjuhlíðarvelli; uppbygging Hvassaleitis vel á veg komin.

 • Grafarholtið 1964, fyrsta brautin. Ljósmynd: Viðar Þorsteinsson.

 • Íslandsmótið á Akureyri 1958

  Ráshópur á Íslandsmótinu í golfi 1958. Frá vinstri: Jóhann Eyjólfsson GR, Sveinn Ársælsson GV, Hermann Ingimarsson GA, Sigtryggur Júlíusson GA. Ljósmynd: Úr safni Jóhanns Eyjólfssonar.

 • Úrslita hollið að klára fimmtu holuna, par 3. (Magnús, Óttar, Pétur og Gunnar Sólnes). Ljósmynd: Viðar Þorsteinsson.

 • Óttar Yngvason púttar fyrir fugli á 72. holu. Ljósmynd: Viðar Þorsteinsson

 • Anna á teig

  Anna Kristjánsdóttir, (eiginkona Gunnlaugs Einarssonar, sem var frumkvöðull að stofnun klúbbsins og fyrsti formaður hans) slær á sjöunda teig á Öskjuhlíðarvellinum.

 • Íslandsmót karla 1967

  Gunnar Sólnes stendur við flaggið á lokaholunni. Í bakgrunni má t.d. þekkja Viðar Þorsteinsson, Ólaf Loftsson, Ólaf Hafberg, Engilbert Hafberg og Karl Karlsson. Ljósmynd: Úr safni Júlíusar Júlíussonar.

Powered by SmugMug Owner Log In