Untitled photo

Minning: Haukur V. Guðmundsson (1939-2020)


Haukur fæddist í Reykjavík 12. júlí 1939. Hann andaðist á lungnadeild Landspítalans hinn 11. mars 2020. Kona Hauks var Erna Sampsted en hún lést árið 2016. Saman eignuðust þau þrjú börn, Guðmund Óskar, Kristján og Öldu Hönnu.

Haukur V. Guðmundsson gerðist félagi í Golfklúbbi Reykjavíkur árið 1963, sama ár og klúbburinn flutti starfsemi sína í Grafarholtið. Sagan segir að það hafi tilviljun ráðið því að Haukur byrjaði í golfi. Hann starfaði sem leigubílsstjóri og fékk það verkefni að aka tveimur mönnum á nýja golfvöllinn. Annar þeirra var Jóhann Eyjólfsson, fyrrum Íslandsmeistari og formaður klúbbsins, sem sagði Hauki frá því að klúbburinn væri að leita eftir nýjum félögum og spurði hann hvort hann hefði áhuga á að prófa. Forvitni Hauks var vakin og ekki skemmdi fyrir að hentugt var að stunda golfið með leigubílaakstrinum, þar sem lítið var að gera fyrri part dags.

Eins og hann segir í viðtali við tímaritið Kylfing árið 2018, þá tók hann snemma að sér ýmis tilfallandi verkefni fyrir klúbbinn, meðal annars að valta brautir og slá flatir, dytta að vélum og jafnvel að rukka inn félagsgjöldin. Hann varð fastur starfsmaður klúbbsins árið 1990, þegar Svan Friðgeirsson var vallarstjóri og tók síðan við starfi hans. Haukur var starfsmaður GR í fullu starfi til ársins 2008 og sinnti síðan ýmsum verkefnum fyrir klúbbinn í hlutastarfi, meðal annars vélaviðgerðum og brautarvöltun.

Félagsmenn í Goflklúbbi Reykjavíkur hafa minnst Hauks undanfarna daga, meðal annars á samskiptamiðlinum Facebook. Það er við hæfi að birta nokkrar minningar um Hauk sem birtar voru á vegg Golfklúbbs Reykjavíkur.


Haukur V. Guðmundsson er búinn að laga sína síðustu vél og braut. Vann með honum í mörg ár við völlinn. Fyrst sem félagi þegar hann og Jón sáu um vélarnar og svo varð hann vallarstjóri og yfirmaður minn uppúr 1990. Það sem hann var duglegur og góður karl.

Það er svo skrýtið að ég hef haft ótal stjórnendur í gegnum tíðina og enn eru þeir langbestir Svan og Haukur sem voru vallarstjórar GR í gamla daga. Fengu ólíkindartól til að vinna saman og höfðu ástríðuna fyrir vinnunni. Haukur gaf extra til GR og elskaði klúbbinn. Það verður skrýtið að rekast ekki á hann í sumar, þannig hefur það verið hjá mér síðustu 40 ár.

Takk Haukur minn og GR hefur misst einn sinn besta liðsmann. Taktu nú til þarna uppi, og ef það er ekki golfvöllur, byrjaðu þá á einum bönker og við klárum völlinn saman þegar ég kem.  

Þinn maður Böddi Bergs.


Fallega skrifað um Hauk sem var órjúfanlegur hluti af golfi í GR á mínum uppvaxtarárum í klúbbnum. Hann var eldhugi af gamla skólanum sem vann af auðmýkt og án þess að vekja athygli á sjálfum sér. Blessuð sé minning hans.

Ásgerdur Sverrisdottir


Haukur var toppmaður og hann fann alltaf eitthvað skondið við hlutina og það sem maður hló oft með honum niðrí vinnuskúr eða uppí skála hvíl í friði elsku vinur.

Ívar Hauksson


Fallega sagt um góđan mann og sameigilegan vin okkar Böddi minn. Haukur sem var vinur pabba míns og Kári rakari kynntu mig fyrir golfinu 1971 og þar međ var mínu lífi breytt og ekki aftur snúiđ. Í Grafarholtinu eignađis ég marga af mínum bestu vinum og var Haukur þar í fremstu röđ ásamt pabba þínum.

Sigurður Ágúst Jensson


Falleg skrif Böddi. Meðan ég gat spilað þá var enginn dagur fullkomnaður án þess að kasta kveðju á þennan öðling. Hann verður fljótur að koma hlutunum í röð og reglu í sumarlandinu. 

Tómas Þráinsson


Haukur var stór hluti af GR, man vel eftir honum sem vallarstjóra þegar ég var að stíga mín fyrstu skref þarna rétt eftir 1990.   

Árni Gunnarsson


Haukur reyndist mér og syni mínum mjög vel og ég tala ekki um það sem hann gerði fyrir Golfklúbb Reykjavikur.  

Sigurður Hafsteinsson  


Myndatexti:

Ljósmyndin hér til hliðar var tekin á 1. teig á Korpunni á fyrsta keppnisdegi Meistaramótsins árið 2016,


Viðtal við Hauk í Kylfingi 2018


Powered by SmugMug Owner Log In