Uppskeruhátíð Mondo-hópsins
Golfhópurinn Mondo sem skipaður er 23 kvenkyllfingum úr GR, hélt uppskeruhátíð sína í klúbbhúsinu í Grafarholti þann 31. ágúst. Hópurinn sem stofnaður var fyrir ellefu árum snæddi kvöldverð og veitt voru verðlaun fyrir góðan árangur í sumar. Þegar ljósmyndara bar að garði hafði Sigríður Sigtryggsdóttir tekið við verðlaunum sínum fyrir sigur í holukeppni og verðlaunaborðið bar þess merki að enn átti eftir að veita verðlaun fyrir ýmis önnur afrek.
Síðasti viðburðurinn í kvennastarfi sumarsins hjá GR fer einnig fram í Grafarholti. laugardaginn 5. september en það er Haustmót kvenna. Ræst verður út frá öllum teigum klukkan 14 og að leik loknum verður slegið upp veislu í klúbbhúsinu.